Del Passatore
 

Það var steikjandi hiti, bæði innan dyra sem utan. Áætlunarbíllinn,yfirfullur af léttklæddum hlaupurum, geystist eftir hraðbrautinni áleiðis til Flórenz að morgni laugardagsins 29. maí, 1999. Þótt ég skildi ekki mikið af því sem ítalkir samferðamenn mínir sögðu þóttist ég greina nokkra taugaveiklun í tali og hátterni flestra. Menn töluðu hátt, slóu um sig með bröndurum og ráku gjarnan upp hávær hlátrasköll milli þess em þeir duttu niður í djúpa þanka eða hófu að háma í sig orkunammi af ýmsu tagi af mikilli áfergju. Ég og Siggi félagi minn sátum lengst af þögulir og störðum út um gluggann á það sem fyrir augu bar. Skógi vaxnar hlíðar risu upp beggja vegna við stórbrotið hraðbrautarmannvirki, sem hlikkjaðist yfir Appenínafjöllin frá austri til vesturs. Við hugsuðum eflaust báðir það sama. Skildi það hafast? Vorum við búnir að hætta okkur út í eitthvað sem við mundum ekki ráða við? Var hitinn of mikil?  Vorum við nógu vel undirbúnir?

Fyrir hlaup

Það voru liðin rúm tvö ár frá því að við félagarnir höfðum fyrst heyrt getið um "Del Passatore", Ítölsku þrekraunina sem að sögn gerði þarlenda þátttakendur að þjóðhetjum í sínu heimalandi(?). Þrekraunina eftirsóknarverðu, sem kennd var við útlagann Del Passatore, sem ferðaðist einkum um Appenínafjöllin austur af Flórens fyrr á árum og gætti jafnvægis í auðsöfnun þegnana með því að hrifsa frá þeim betur megandi og færa lítilmagnanum, líkt og Hrói Höttur gerði í Skírisskógi forðum daga.  Del Passatore er 100 km ofurmaraþon sem hlaupið er í einum áfanga frá Flórenze austur yfir Appenínafjallgarðinn í áttina að Adríahafi til bæjarins Faenza. Hlaupið er eftir gömlum og fallegum fjallvegi úr ca 60 metra hæð yfir sjávarmáli í Flórenze og farið hæst í um 920 metra hæð eftir á að giska 50 km. Eftir það liggur leiðin eftir mishæðóttum veginum að jafnaði niður á við og endar í um 35 metra hæð yfir sjávarmáli.

Þetta beið okkur nú þegar við brunuðum eftir hraðbrautinni í vesturátt frá Faenza að rásmarki hlaupsins sem var staðsett í miðbæ Florenze við aðaltorg bæjarins umhverfis hina fornu og rómuðu dómkirkju borgarinnar. Þetta var í 27. sinn sem Del Passatore var þreytt. Við félagarnir, undirritaður og Sigurður Gunnsteinsson höfðum leynt og ljóst stefnt að þessu frá áramótunum 1998/1999 og tekið endanlega ákvöðrun fyrr um vorið eftir að hafa hlaupið 65 km æfingarhlaup í kringum Þingvallavatn og Úlfljótsvatn. Það var sannfæring okkar eftir það hlaup að við ættum að geta gert meira og del Passatore kallaði. Við höfðum æft stíft á vetrar og vormánuðum skv. hefðbundnum æfingaáætlunum fyrir maraþon og ofurmaraþon: Hlaupamagn var aukið jafnt og þétt frá áramótum úr ca. 60 -  80 km á viku í um 130 ? 150 km á viku mánuði fyrir keppnishlaup. Því  næst var dregið úr æfingaálaginu jafnt og þétt síðustu fjórar vikurnar. Loks höfðum við félagarnir bætt á okkur nokkrum kílóum af kolvetnaforða síðustu dagana með ótæpilegu pasta og spaghettiáti til að eiga nægan orkuforða að ganga á. Þetta hlaut að ganga upp(?). Það var vart hægt að hugsa sér betri undirbúning. Við höfðum gert okkar besta  og vorum til í slaginn.

Í ofanálag höfðum við félagarnir mætt samviskusamlega nokkrum dögum fyrir hlaupið, orðið okkur út um gistingu í Faenza og og spurt aðstandendur hlaupsins í þaula um aðstæður og aðbúnað allan við hlaupið. Það stóð ekki á svörum hjá ítalanum. Drykkjar og matarstöðvar áttu að vera á 5 kílometra fresti þar sem boðið yrði upp á vatn, orkudrykki, ávexti, brauð, súpur og jafnvél léttvín! Þá var deginum ljósara að drykkir yrðu í lokanlegum ílátum þannig að unnt væri að bera þá með sér milli drykkjarstöðva, nokkuð sem mikilvægt er í langhlaupum og í miklum hita eins og hér um ræddi. Síðast en ekki síst mundu kílometramerkingar verða tíðar og auðgreinanlegar á hlaupaleiðinni að sögn kunnugra. Allt virtist eins og best yrði á kosið. Var hægt að biðja um nokkuð meira?

Við vorum mættir tímanlega fyrir ræsingu á dómkirkjutorginu í Flórenze ásamt aragrúa annarra hlaupara. Óljósar fregnir hermdu að ca 4000 hlauparar mundu hefja  hlaupið að þessu sinni í einhverjum mesta hita sem ríkt hafði frá upphafi Del Passatore, 35oC. Þó var áætlað að einungis lítill hluti þess hóps, eða innan við 1000 hlauparar, mundu klára heildarvegalengdina, 100 km, enda unnt að fá viðurkenningu fyrir lúkningu styttri vegalengda, 35 km, 55 km og 65 km. Það var óneitanlega farið að fara ögn um okkur félagana, sem höfðu oftar en ekki æft heima í frosthörkum vetrarmánaðanna eða í roki og rigningu vormánaðanna. Áttum við að hætta við allt saman á síðustu stundu? Nei og aftur nei! Hingað vorum við komnir, fulltrúar íslands merktir í bak og fyrir með íslenska fánanum, styrktir af Leppin umboðinu á Íslandi með rausnalegu framlagi af alls kyns orkugumsi og drykkjardufti sem og af Asics umboðinu með fyrirheitum um góð kjör við kaup á hlaupaskóm í framtíðinni. Það varð ekki aftur snúið. Við stilltum okkur upp nálægt rásmarkinu einbeittir á svip og biðum þess sem verða vildi.

                 
Ágúst, snemma í hlaupinu                           Sigurður, snemma í hlaupinu

Skot reið af nákvæmlega klukkan 15:00 síðdegis. Hlaupið var hafið. Við óskuðum hvor öðrum velgengni með handaklappi og geystumst af stað. Það skildu fljótt leiðir í mannmergðinni og við áttum ekki eftir að sjást aftur fyrr en við endamarkið. Í fyrstu lá leiðin um flatlendi Flórenzborgar, en fljótlega hófst klifur upp brattar hlíðar suðaustur af borginni þar sem vegurinn lá í gegnum fallegt þorp, Fiasole að nafni, sem augsýnilega var byggt vel efnuðum ítölum að meirihluta. Hvar var Del Passatore nú!  Frískleiki hlauparanna var í hámarki, mikið um hróp og köll, mikið grín og mikið gaman, en brattinn og hitinn tók sinn toll og smám saman urðu menn þögulli og einbeittari í sjálf síns hugarheimi. Mig var strax farið að lengja eftir fyrstu drykkjarstöðinni. Ég var fljótt  búinn með 1,5 lítra vatnsbrúsa sem ég hafði borið og dreypt á frá ræsingu með reglulegu millibili. Framundan blasti við drykkjarstöð. Ég fleygði frá mér vatnsbrúsanum, hugðist  vökva mig vel og grípa með mér nýja brúsa, en viti menn. Engir "meðfæranlegir" drykkjarbrúsun fyrirfundust á drykkjarstöðinni. Jæja, hvað um það, fyrrgreindum heimildamönnum okkar gat svo sem hafa skjátlast með fyrstu drykkjarstöðina (?) svo ég sneri við og náði í gamla brúsann minn, fyllti á hann og fékk mér auk þess væna gúlpsopa af ýmsum drykkjum. Hélt því næst áfram fjallaklifrinu og skimaði eftir kílometramerkingum, án árangurs. Þar kom að leiðin lá niður á við eftir á að giska 25km. Það var nokkur léttir og ég reyndi að nýta mér þyngdaraflið til að hjálpa mér að hlaupa léttara og árangursminna næstu kílometrana. Var hitinn að aukast eða var það einungis afleiðing áreynslunnar að mér fannst svo? Þar kom að dalbotni var náð. Í fjarska, á vinstri hönd, blöstu við Appenínafjöllin, að því eð virtist í órafjarlægð. Skyndilega fylltist ég vanmáttartilfinningu. Ég var búin að hlaupa í 3 klst. Minna en þriðjungur hlaupsins var að baki. Mesta fjallaklifrið var framundan í fjarska. Enga meðfæranlega drykkjarbrúsa var að hafa á dykkjarstöðvum og ég hafði takmarkaða yfirsýn yfir gang mála þar eð kílometramerkingar skorti algjörlega. Hitinn virtist vera að verða óbærilegur. Ég fór að ganga, skref fyrir skref, niðurlútur. Hvað var eiginlega að gerast með mig? Hversu oft hafði eg ekki lesið og/eða hlustað á ráðleggingar , þess efnis að einmitt þetta mætti ég síst af öllu gera, að gefa mig á vit bölsýnishugsana. "Vertu í núinu" er alkunnugt orðatiltæki sem við á um langtímaþrekraunir af þessu tagi. Hugsaðu um líðandi stund. Einbeittu þér að sjálfum þér þessa stundina. Hvernig gengur NÚNA?  Ég reyndi að bægja öllum neikvæðum hugsun frá mér, njóta augnabliksins, umhverfisins,  hvatningar áhorfenda á vegarköntunum og við drykkjarstöðvar. Hvað gerði til þótt  drykkjarbrúsa og kílómetramerkingar vantaði? Ég átti nógan kraft og vilja fyrir  líðandi stund, NÚNA.

            
Eftir 35 km, Ágúst,                                     Sigurður

Þar koma að ég hljóp í gegnum fyrsta megináfanga hlaupsins, 35 km markið, í bænum Borgo de Lorenzo innst í dalbotni. Millitími var tekinn og skráður  ca. 3 klukkustundir.  Hér  létu margir hlauparar staðar numið, ánægðir með sitt og fóru til síns heima. Fyrir okkur hina hófst nú bratt fjallaklifur, á að giska 800 metra hækkun. Það var skuggi af trjám, ég horfði beint ofan í malbikið og skokkaði hægt og bítandi upp hlykkjóttan veginn, ca 12 km leið. Mér leið eins og hlaupinu væri lokið þegar toppnum var náð. Það voru glaðir en þreyttir hlauparar sem svolgruðu í sig orkudrykki og vatn eða tróðu sig út af fastri fæðu meðan þeir litu yfir skógivaxinn dalinn. sem blasti við framundan.  Það voru liðnar tæpar fimm klukkustundir. Nú hófst bratt niðurhlaup í fyrstu. Nú var ég í essinu mínu. Þetta var mín besta hlið. Ég naut þess að láta mig falla fram á við og fór að taka fram úr öðrum hlaupurum. Smám saman minnkaði þó brattinn og hraðinn um leið, uns brautin varð lítils háttar aflíðandi með einstaka uppbrekkum inn á milli. Það var farið að rökkva. Við hlaupafélagarnir höfðum farið að  ráðleggingum aðstandenda  hlaupsins og bárum  með okkur vasaljós í pyngju. Það kom þó að takmörkuðum notum við lýsingu þar eða fullt tungl skein á heiðum himninum og lýsti okkur fullvel. Á hinn bóginn reyndist ekki vanþörf á að nota það við að vekja á sér athygli akandi vegfarenda, sem oft á tíðum geystust fram hjá hlaupurunum af takmarkaðri tillitsemi.

            
Eftir 65 km, Ágúst                                    Sigurður

Hlaupið styttist. Megináfangastað nr. 2, við 55 km markið í bænum Crespino var náð rétt fyrir sólarlag og megináfangastaður nr. 3 við 65 km  í bænum Marradi náðist eftir um  6 klst. og 30 mínútur. Það var að mér dregið. Ég var farinn að ganga í vaxandi mæli milli þess sem ég reyndi að taka á og  hlaupa eða skokka. Einungis örfáum hlaupurum brá fyrir öðru hvoru í myrkrinu, allir þögulir, hver í sýnum heimi. Það var orðið lítilsháttar svalara. í huga mér var hlaupið farið að skiptast í 5 km "áfangahlaup" milli drykkjarstöðva, sem urðu hvíldar og áningarstaðir þar sem ég dvaldist stöðugt lengri tíma.  Sálfræði niðurtalningarinnar var hafin. 20 km voru eftir; tæplega hálft maraþon, þá  10 km; hversu oft hafði maður ekki hlaupuð þá vegalengd í almenningshlaupum heima? 5 km voru eftir; einungis síðasti "hlaupaáfanginn". Ég var orðinn tilfinningasljór og skynjun öll brengluð. Ég fann vart fyrir fótleggjunum. Var ég að hlaupa hratt eða silaðist ég áfram? Nú tók því ekki að slá af. Ég tók á öllu sem ég átti eftir. Hljóp viðstöðulaust síðasta áfangann. Bjarma frá Faenza bar við himinn í fjarska. Birta frá húsum og götuljósum jókst. Ég sá tvo hlaupara framundan. Nú var um að gara að nýta sér þetta. Þetta var nú einu sinni keppnishlaup, var það ekki?! Það dróg saman með okkur. Við vorum komnir inn í Faenza. Hlupum eftir aðalgötunni. Ég var kominn upp  að þeim félögum. Fyrir augum blasti við upplýst bæjartorgið og framundan sást markið líkt og himnaríkishlið(?).  Nú var að duga eða drepast.  Áfram,  áfram. Það heyrðust hróp í fjarska. Á síðustu sekundum hlaupsins renndi ég mér fram úr tveimur stjörfum Ítölum, sem virtust ekki vita hvaðan á sig stóð veðrið og kom í mark eftir 10 klst. 23 mín og 23 sek. frá upphafi hlaupsins.  Næstu sekundur virtust halfóraunverulegar og líkari draumi en veruleika. Ungar blómarósir tóku á móti okkur hlaupurunum á blómum skrýddum palli, hengdu verðlaunapening um hálsinn og réttu okkur viðurkenningarskjal með upplýsingum um árangur. Blindandi ljósleiftur frá myndavél reið af.  Raddir heyrðust í fjarska og brosandi andlit með aumkunarsvip virtust allt um kring.  Loks var maður leiddur haltrandi og halfstjarfur að nálægu tjaldi þar sem askja með þremur léttvínsflöskur frá Toskahéraði Ítalíu beið manns í tilefni árangursins. Þá loks blasti við kunnuglegt andlit. Þarna við útgönguhliðið  stóð Ólöf, vinkona mín, sem hafði fylgt okkur til ítalíu, hálfáhyggjufull a svipinn, en með bros á vör.  Það urðu fagnaðarfundur. Ég hafði hafnað í 75. sæti af um 800 hlaupurum sem náðu að ljúka 100 km. Ég gat ekki annað en verið ánægður.

            
100 km: Ágúst                                            Sigurður

Smá saman kom ég til sjálfs mín aftur. Hvernig skildi Sigga reiða af, laust niður í huga mér? Þetta var hans fyrsta hlaup af þessari vegalengd. Ég hafði þó tvívegis áður hlaupið álíka vegalengdir, fyrst hið þekkta ofurmaraþon "Comrade" í Suður Afríku, 90 km og síðar 100 km hlaup í Hollandi og var því reynslunni ríkari.  Ljóst var að  þetta hlaup var sýnu erfiðast; hæðóttari braut og mikill hitinn. Hlaupafélagi minn, sem var að nálgast sextugsaldurinn, hlaut að hafa látið sér nægja að klára einhvern af styttri áföngunum, hugsaði ég, en hvar var hann þá? Tölvuvæddir ítalskir tímaskráningarmenn gátu þó fljótt upplýst okkur um hvernig í pottinn var búið.  Nei, minn maður var sko ekkert af baki dottinn. Það var búið að færa inn millitíma hans við 90 km markið og hann nálgaðist óðum. Það leið ekki á löngu þar til greina mátti svip af manni með kunnuglegt hlaupalag. Þarna kom Sigurður Gunnsteinsson út úr myrkrinu, skrefstuttur að vanda en ekki að sama skapi hægfara. Það var engu líkara en að hann væri að hefja hlaupið þar sem hann renndi sér frísklega í gegnum markið  um leið og hann hrópaði athugasemdir, af sinni alkunnu kímnigáfu, um þennan "smáspotta" sem hann hafði nú lagt að baki!  Hann kláraði hlaupuð á frábærum tíma, 13 klst og 32 mínútum. Það urðu aftur fagnaðarfundir.


Að hlaupi loknu: Sigurður og Ágúst

Við höfðum lagt að velli ítölsku þrekraunina, Del Passatore. Tilfinningin var notaleg. Draumur hafði ræst.  Einir, með sjálfum okkur, höfðum við gengið í gegnum líkamleg og andleg átök sem höfðu kennt okkur að þekkja okkar takmörk og fært okkur ómetanlega reynslu. Við kváðum upp úr einum rómi með það að þetta uppátæki, sem sumum kann að finnast öfgafullt, væri svo sannarlega erfiðisins virði. Við félagarnir litum hvor á annan og spurðum í einlægni:  Hvað næst!?
 
 

Ágúst Kvaran,
September, 1999