Reykjavík 100 km, 2009

Félag 100 km hlaupara stóð fyrir 100 km hlaupi í dag, 6.6.09. Það er annað 100 km hlaupið sem haldið er á Íslandi. Ýmissa hluta vegna varð þátttaka minni en ætlað var en það endaði á því að tveir hlauparar tóku þátt í 100 km hlaupinu. Meiðsli, veikindi og aðrar ástæður ollu því að nokkrir heltust  úr lestinni. Einnig var boðið upp á maraþonvegalengd og tóku þrír hlauparar þátt í því.
Aðstæður allar voru eins og best verður á kosið. Sólskin, 13-14 sitga hiti og létt gola. Betra hlaupaveður fæst ekki. Sigurjón Sigurbjörnsson sigraði í hlaupinu á 8.23.45 sem er nýtt íslandsmet. Hann bætti íslandsmet Ágústar Kvaran sem sett var fyrir 11 árum, um rúmar 19 mínútur. Karl Martinsson lauk hlaupinu á 13 klst og 11 mínútum.
Millitímar voru birtir jöfnum höndum á www.hlaup.com þannig að hægt var að fylgjast með því á netinu hvernig hlaupið færi fram. 
Hlaupurum er þökkuð þáttakan svo og öllu því fólki sem vann við hlaupið og gerði félaginu mögulegt að halda það. Stefáni Þórðarsyni í Danmörku er þökkuð aðstoð við vefmál. Bananar ehf gáfu ávexti og Íslenska gámafélagið ehf lagði til vinnuskúr og salernisaðstöðu. Þessum velunnurum hlaupsins eru færðar bestu þakkir fyrir aðstoðina. Hvað varðar undirbúning og framkvæmd hlaupsins þá eru það alltaf einhver atriði sem má læra af svo betur megi fara og verður farið yfir það fyrir næsta hlaup.  
Mbk Gunnlaugur Júlíusson 07.06.2009