100km hlaup i Stige í Danmörku 21. maí 2005

 

Fyrstu hugmyndir mínar um 100km hlaup kviknuðu á Ægisíðunni í desember 2003 á hlaupum með Pétri Reimarssyni. Ég var þá búinn að hlaupa 30 venjuleg maraþon og langaði að prófa eitthvað nýtt. Talið barst að Ítalíu og Passatore hlaupinu. Það kom í ljós að við höfðum báðir hug á að taka þátt í 100km hlaupi og Ítalía hentaði vel fyrir báða á þeim tíma.

 

Æfingar hófust strax af miklu kappi hjá mér, Pétri og Svani Bragasyni en hann bættist í hópinn. En í mars 2003 fékk ég álagsbrot og varð að hætta æfingum.

Ég hafði þó náð að kynnast löngum og erfiðum æfingahlaupum á bilinu þriggja til  sex klukkustunda löngum. Þetta  var mjög skemmtilegur tími.

Var í hálfgerðri depurð og sjálfsvorkun framan af sumri. Sætti mig þá við orðin hlut og ákvað að sjá til þegar mér batnaði.

Um áramótin 2004-5 fór ég að svipast um eftir vænlegu hlaupi, Del Passatore kom ekki til greina þar sem til stóð að útskrifa stúdent á heimilinu sömu helgina og hlaupið fór fram. Ég fór þá að leita að hlaupi sem var innan seilingar þ.e. á Norðurlöndunum.

Aðeins tvö hlaup komu til greina, Lappland Ultra og hlaupið í Stige. Lappland var ansi freistandi í fyrstu þar sem mér fannst það ekkert spennandi að hlaupa tíu 10km hringi í Stige. Við nánari skoðun varð Stige ofaná. Það var fyrr um sumarið þannig að ef það gengi ekki upp þá gat ég alltaf farið til Svíþjóðar og reynt aftur.  Ég fékk svo að vita að leiðin í Lapplandi væri ekkert spennandi, hlaupið í skógi og ekkert sæist nema tré.

 

Stige er í úthverfi Odense í Danmörku þar sem ég var við nám í þrjú ár fyrir löngu síðan. Ég sá fyrir mér mjög stutta og auðvelda ferð á stað sem ég þekkti vel. Engar áhyggjur af einu eða neinu varðandi ferð, tungumál og húsnæði. Hlaupið Í Stige hefur verið haldið frá árinu 1997 og gáfu umsagnir fyrri hlaupara til kynna að þetta væri nokkuð gott hlaup og að það væri vel að því staðið. Hlaupnir eru tíu 10km hringir í bænum, á malbiki, steyptri stétt og einnig á malarstíg. Tvær drykkjarstöðvar eru á hringnum. Ég skráði mig því í hlaupið og þegar nafnið mitt var komið inná listann yfir þátttakendur gekk ég frá flugfarinu, pantaði hótel og þar með var þetta ákveðið og ekkert „kannski” lengur. Ég fór ekkert hátt með þessi áform mín því þetta tókst ekki hjá mér í fyrra, mér fannst betra að segja frá þessu þegar ég væri búinn.

 

Ég byrjaði æfingar í desember og fór að lengja þær vegalengdir sem ég hljóp og hélt svona 80 til 90km að meðaltali fyrstu vikurnar. Við Pétur og Gunnlaugur vorum samferða  á laugardögum fyrstu mánuðina þangað til Pétur fór til Boston. Ég notaði hamborgaraaðferðina þ.e. tvö löng hlaup um helgi og hvíld fyrir og eftir. Hvíldarvikur voru inní áætluninni þar sem álagið var minnkað um helming. Minnugur meiðslana í fyrra fór ég ekki í nein átök og fann að brekkur voru hættulegar þannig að ég forðaðist þær frekar, en auðvitað vissi ég að það gat komið niður á mér í sjálfu hlaupinu. Ég vildi þó frekar fara hlaupið aðeins hægar og klára það en að meiða mig í brekkuhlaupi. Ég borðaði hollari mat og í meira magni, var ekki í neinu svelti og tók vítamín og borðaði grænmeti. Hljóp einnig á mýkri skóm en í fyrra. Teygjur og smá nudd voru einnig stundaðar þegar tími gafst til.

 

Löngu hlaupin lengdust og ég tók bæði maraþonin sem í boði voru hér á landi sem æfingahlaup. Löngu hlaupin þ.e. laugardagshlaupin voru 40 til 50km. Sunnudagarnir voru svona 25 til 30km. Það að hlaupa sautján hringi hjá Pétri í Pétursþoninu sannfærði mig um að Stige-hlaupið yrði allt í lagi hvað hringhlaup varðar. Talan tíu er jú mun lægri en sautján þannig að þetta hlaut að vera allt í lagi. Æfingar gengu samkvæmt áætlun og þeim lauk með Þingvallavatnshlaupinu sem var 72km og hljóp ég það þremur vikum fyrir hlaup ásamt Gunnlaugi og Pétri. Heildarvegalengd þá vikuna voru 142km sem hlaupnir voru á fjórum dögum. Þetta varð að duga, nú var of seint að bæta við æfingum.  Þá var ég búinn að hlaupa um 1400km frá áramótum eða að meðaltali 88km á viku. Hvíldin tók við. Nú tók við ansi löng bið og nú fóru áhyggjurnar að gera vart við sig. Ég fór að skipuleggja nesti og fatnað, fylgjast með langtíma veðurspám. Ég keypti skó sem voru hálfu númeri stærri en ég er vanur að nota, fæturnir stækka aðeins í svona löngu hlaupi.

Það var mér til happs að Haraldur Júlíusson hitti mann að nafni Rune Larsson á fyrirlestri hjá Adidas. Rune þessi hefur gert ýmislegt um dagana, hlaupið yfir Bandaríkin, róið yfir Atlandshafið og hlaupið allskonar ultrahlaup.  Halli sagði honum að hann þekkti tvo hlaupara sem væru að fara í ultrahlaup og bað hann um góð ráð handa þeim. Hann sagði að það væri auðvelt, aðeins þrír stafir?? Hvaða stafir eru það var spurt. E A T. Sem sagt að borða vel og drekka í hlaupinu. Ég fór eftir þessu og sé ekki eftir því. Rune er með ansi áhugaverða heimasíðu með allskonar fróðleik.

 

Ferðin út gekk vel og seinni part föstudagsins fór ég með strætó til Stige og fann Stige Skole en þaðan var hlaupið. Boðið var uppá pastamáltíð um kvöldið og hittust þá flestir hlaupararnir. Sumir voru greinilega mjög vanir ultrahlauparar og höfðu gert þetta oft áður og einnig tekið þátt í þessu hlaupi. Þetta hlaut því að vera í lagi fyrst menn komu aftur og aftur. Gistingin var í íþróttasal og varð hver og einn að hugsa um sig sjálfur. Ég nennti ekki að burðast með fyrirferðamikla dýnu svo ég gerði tilraun til að sofa á 8mm þykkri undirlagsdýnu. Ég vissi fyrirfram að ég myndi ekki sofa mikið og var því ekkert að svekkja mig á dýnunni, ég hafði valið hana sjálfur.

 

Til glöggvunar fyrir aðra er hér matseðill dagsins ásamt hjálpartólum:

 

·          Nesti og aukahlutir á leiðinni

1.        Flatkökur með miklu smjöri

2.        Leppin orkustangir

3.        Döðlur, Anton Berg marsipansúkkulaðibitar í poka

4.        Salt í poka

5.        Auka brúsi með orkudrykk

6.        Tvær 400 mg Ibufen

7.        Blöðruplástur Compeed

8.        Salernispappír “in case”

·          Nesti á aðaldrykkjarstöðinni

1.        Varabyrgðir af öllu (flatkökur, drykkir, nammi)

2.        Kartöfluflögur með salti

3.        Bananar

4.        Kex

5.        Vínarbrauð

 

Við vorum vaktir mér til mikillar gleði klukkan fjögur að dönskum tíma og þá var boðið uppá morgunmat, ég borðaði eitthvað en hafði ekki mikla lyst. Önnur hefðbundin morgunverk fyrir langt hlaup gengu bara vel og síðan hófst vaselín smurningin mikla. Veðrið þegar við vöknuðum var mjög gott, logn og háskýjað en veðurspáin sagði að það myndi fara að rigna og þrumuveður ætti að ganga yfir, dagurinn ætti þó að enda í sól. Hitinn var um tíu gráður. Ég var aðeins með stuttbuxur og bar því vaselín vel á fótleggina. Síðan var ég í stuttermabol, langermabol, jakka og með UMFR36 húfuna góðu. Ég reiknaði síðan með því að fækka fötum og enda í stuttermabolnum. Veðurspáin stóðst og þegar við lögðum af stað klukkan sex var komin ausandi rigning og svolítill vindur. Rigningin truflaði mig ekkert, ég vissi að það myndi stytta upp seinna um daginn. Ein og ein þruma reið yfir, ég hélt mér hjá hávöxnum mönnum eins og ég gat, eldingar leita víst að hæsta punkti! Ég varð fljótt gegndrepa en varð samt aldrei kalt.

 

Fyrsti hringur var auðveldur og einnig annar. Ég borðaði og drakk á báðum drykkjarstöðvunum enda höfðu mér reyndari menn sagt mér að byrja á því um leið og ég gæti. Boðið var uppá bæði vatn og orkudrykk, ég drakk það í bland, tók vatn ef ég borðaði orkustöng og orkudrykk ef ég fékk mér eitthvað annað.

Maginn var bara nokkuð góður þrátt fyrir allt þetta át.

Ég vissi frá Þingvallavatnshlaupinu að ég færi að finna til þreytu eftir 30km og gekk það eftir, hlaupið var sem sagt byrjað. Hringirnir urðu fleiri og fleiri og því færri eftir. Ég hugsaði ekkert um hvað ég ætti marga kílómetra eftir, ég taldi bara hringina, fjöldi hringjanna var tíu sinnum minni tala en fjöldi kílómetranna, smá sálfræði varð að beita. Það að eiga fjóra hringi eftir er betri tilhugsun en hugsunin um að nú væri nærri því eitt maraþon eftir.  Eftir 40km hætti ég að fylgjast með klukkunni, ég ætlaði bara að klára hlaupið. Eftir 50km fór ég að bæta inn smá göngutúrum inní hvern hring. Meiri sálfræði eftir 50km: “Ef þú tekur einn hring enn ertu búinn að fara sex og bara fjórir eftir, ekkert mál”. Síðan fór ég alltaf einn hring enn og þeim fækkaði sem eftir voru.  Ég hafði hlaupið yfir 70km á æfingu þannig að mér fannst að eftir sjöunda hring væri ég á leið inní óvissuna, þá fyrst væri ég farinn að hlaupa langt. Eftir það voru þetta ógurlegar tölur 80km, 85km vá, nú var ég að hlaupa svolítið langt.

Ég fór að gera mér grein fyrir því að ég var búinn að hlaupa ansi lengi. Þegar við byrjuðum hlaupið var allt mjög kyrrt í bænum, síðan sást einn og einn bíll, síðan fólk á gangi  og svo opnaði búðin, en framhjá henni hlupum við einu sinni á hverjum hring. Næstu klukkutímana var mikið að gera í búðinni en svo var allt í einu búið að loka henni og umferðin minnkaði í bænum. Þá fannst mér ég vera búinn að vera lengi á ferðinni. Þegar leið á daginn kom sólin fram og hitinn fór í 17°C, bara notalegt.

Ég ákvað þegar ég var kominn á áttunda hring að næsti hringur þ.e. á milli 80 og 90km yrði síðasti erfiði hringurinn, ég ætlaði að njóta þess síðasta. Gallin var að ég vissi bara ekki hvernig þessi notalegheit ættu að fara fram. Kannski var það bara tilhugsunin um að þessu væri að ljúka.

Ég lauk hlaupinu á 11:17:08, þreyttur! Ég fékk enga blöðru, aldrei krampa, ógleði eða magakveisu. Ég þakka það góðum skóm (Adidas Supernova), góðu og fjölbreyttu fæði í hlaupinu. Vökvabúskapurinn var með miklum ágætum þannig að ég tel mig hafa gert allt rétt. Það var bara venjuleg þreyta sem hrjáði mig, vilji og sjálfstraust eru góð meðul gegn henni. Ég lenti í sextánda sæti af tuttugu og fjórum. Þrjátíu hófu keppni og sex hættu af ýmsum ástæðum.

 

Ég skrölti heim á hótel, fékk mér stórann BigMac og hugsaði hlýtt til mjúka rúmsins. Það var samt erfitt að sofa því ég var stirður með verki allsstaðar í kroppnum. Ég var jafn þungur þegar ég viktaði mig eftir hlaupið og fyrir það. Sem sagt í góðu lagi og ánægður með eigið afrek. Ég var mjög þreyttur næsta dag og þótti mjög erfitt að ganga niður stiga. Það skánaði á á öðrum degi. Dagarnir voru í boði Ibufen-umboðsins!  Ég fór til Köben og náði að fylgjast með Pétri og Haraldi hlaupa Kaupmannahafnarmaraþonið.

 

Stige 100km hlaupið et tilvalið fyrir byrjendur í 100km hlaupum, það er vel að því staðið, enginn lúxus en allar þarfir hlaupara uppfylltar. Heimasíða hlaupsins er  http://www.100km-run.dk/

Það er aldrei að vita nema ég reyni seinna við annað 100km hlaup ef tækifæri gefst.

 

Þegar þetta er skrifað er ég orðinn fullgildur meðlimur í Félagi 100km hlaupara,

kominn með húfu og atkvæðisrétt á fundum. Er hægt að biðja um meira??

 

                                                                                       Júní 2005

Halldór Guðmundsson