Frásögn tengd þátttöku í 24 klst hlaupi í Finnlandi
innanhúss,dagana 29.-30.01.2011:
Þótt sumarfríið mitt með konu minni í
Frakklandi hafi verið afar skemmtilegt þá voru það mikil vonbrigði að vera
stöðvaður nánast í upphafi MtBlanc hlaupsins síðsumars. En vafalítið var það
rétt ákvörðun hjá þeim. Sál og líkami kröfðust þess að nýta formið. Fann þó
ekkert sem hentaði vel fyrr en ég rakst á 24klst hlaupið við flakk á netinu í
seinni hl sept og náði að skrá mig áður en uppselt var. Áframhaldandi æfingar
gengu bara vel, fór nokkrum sinnum yfir 100 km á viku og virðist þola það.
Hraðaæfingar hef ég hins vegar ekki stundað sem skyldi en bætt verður úr því.
Það var kalt og snævi þakið í Finnlandi er Sara dóttir mín og ég komum þangað.
Vorum á hóteli skammt frá íþróttahöllinni í Espoo. Hlaupið var á 390metra
innanhússbraut, Mondo track. Allt var vel skipulagt hjá Finnunum. Hver keppandi
hafði borðhluta fyrir drykki og mat og smá svæði fyrir stól. Jafnvel unnt að
leggjast niður ef þörf krafði. Mér fannst brautin hörð , vafalaust mjög góð
fyrir styttri vegalengdir en eftir 3-4 tíma var ég kominn með verki og eymsli í
rifjabörðin og kviðvöðva. Ógleði hrjáði mig einnig í nokkrar klst fyrri
hlutann. Veit ekki af hverju, fylgdi fyrirfram ákveðnu næringarplani, drakk nóg,
tók sölt osfrv. Fannst strax í byrjun mjög erfitt að halda uppi hraða, miklu
erfiðara við þessar aðstæður en í hreinu loft í Elliðaárdalnum eða uppi í
Heiðmörk. Seinni hlutann var mikið gengið en ég var aldrei syfjaður og stoppaði
aldrei neitt að ráði. Án aðstoðar Söru hefði aldrei gengið svona vel. Er mjög
sáttur að ná yfir 100 mílur. Mun vafalítið reyna aftur síðar en þá úti við og
stefna þá á yfir 180 km. Þótt mér finnist miklu skemmtilegra að þreyta
fjallamaraþon þá var þetta alls ekki leiðinlegt eins og maður gæti haldið
fyrirfram og tíminn leið ótrúlega hratt.
Næsta verkefni er vormaraþon, síðan sennilega
RVK 100, þá Laugavegurinn og síðan MtBlanc í lok ágústs. Læt það duga á þessu
ári.
sjá http://uutiset.endurance.fi/?page_id=1894 & http://endurance.fi/24/eng.html
Höskuldur Kristvinsson, febr. 2011